veikindi, aðgerðin og niðurstöðurnar

Jæja, er ekki kominn tími á eitt blogg svona á aðventunni?

Ég er semsagt orðin 29 og 365 daga gömul og nokkrum dögum betur og eyddi ég afmælisdeginum í veikindi, en bauð að vísu systrum hans pabba og mágkonu sem búa hér í Reykjavíkinni í kaffi og síðan tengdaforeldrum mínum í kvöldmat og eins var mamma líka á staðnum.

Ég fór ekki í aðgerðina 18. nóv eins og til stóð, því ég er búin að vera veik heima síðan 9. nóv, byrjaði á því að missa röddina af og til í vinnunni mánudaginn 8. nóv, síðan um kvöldið var ég nánast orðin raddlaus, um nóttina svaf ég ekki fyrir hóstaköstum og þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorgninum var ég orðin algjörlega raddlaus og drulluslöpp, þannig að ég tilkynnti mig veika. Síðan þá hef ég ekki farið í vinnuna nema ég stals hálfan dag mánudaginn 22. nóv, svona til að komast aðeins út og eins til að gefa mínum ástkæru vinnufélögum kökur í tilefni af afmælinu mínu 20. nóv.
En aðgerðinni var sem sagt frestað, þar sem ég var komin með berkjubólgu og lungnabólgu og ég var raddlaus í heila 11 daga og mér var skellt á sýklalyf. Mamma kom í Rvk laugardaginn 13. nóv, þar sem hún ætlaði að hjálpa okkur með heimilið og krakkana á meðan ég væri frá, því Axel er farinn út fyrir sjö á morgnana og stundum ekki kominn heim fyrr en níu á kvöldin þá daga sem hann er að vinna, þannig að dvöl mömmu lengdist útaf frestuninni og er hún að fara heim núna á morgun.

En aðgerðinni var ekki frestað lengi, þar sem það lá á að ég færi í hana og var mér treyst í hana núna fimmtudaginn 25. nóv, en var undir extra eftirliti þar sem lungun voru ekki orðin alveg hrein og svo útaf MS-inu. Aðgerðin sjálf gekk ágætlega fyrir utan það að það blæddi svolítið.
Og síðan þá er ég búin að vera heima og gæti nánast drepið mann og annan, þar sem mér leiðist svo og langar mest af öllu í vinnuna mína, það er alla vega komið á hreint að ég myndi drepa mann og annan ef ég þyrfti að hanga heima atvinnulaus alla daga..

En þar sem ég hef fengið niðurstöðurnar úr aðgerðinni, að þá ætla ég mér að segja frá því núna afhverju ég þurfti að fara í aðgerð, það eru ekki nema örfáir sem vita afhverju ég var að fara í aðgerð, en ég vildi ekkert vera að tala mikið um það fyrr en niðurstaðan væri ljós, fannst nóg að ég og mínir allra nánustu þyrftum að spá í þessu.
Málið er að það fannst hnúður, sem var samkvæmt skoðun um 2 cm og það þurfti að fjarlægja hann sem fyrst og senda í ræktun. Síðan þegar aðgerðinni var lokið, þá kom í ljós að hnúðurinn hefði ekki verið um 2 cm, heldur var æxli um 5 cm. Í leiðinni lét ég að vísu taka líka 2 fæðingarbletti sem voru farnir að angra mig ásamt einum æðarhnút. Fínt að gera þetta allt í einu..

En svo núna á föstudaginn fór ég til læknis þar sem ég er búin að vera með óvenjumikla verki, svima og algjörlega svefnlaus síðustu fimm sólarhringana og þá sagði hann mér hver niðurstaðan úr þessu væri.
Það fannst ekkert í fæðingarblettunum allt í góðu með þá gömlu vini mína og æxlið sjálft var góðkynja, en það eru frumubreytingar og þarf ég að láta fylgjast vel með mér og eins fylgjast vel með ef ég skyldi verða vör við einhverjar breytingar sjálf.
Þannig að eins og ég var búin að segja við sjálfa mig, þá vissi ég að það kæmu jákvæðar fréttir út úr þessu, því mér fannst ég alveg eiga það skilið að fá jákvæðar niðurstöður varðandi veikindi, já og bara minni fjölskyldu, en auðvitað var ég ofboðslega hrædd alveg frá því að þetta fannst og þar til núna á föstudaginn, en ég lét ekkert á því bera, hélt því bara fyrir sjálfa mig.

Núna er ég svo bara að jafna mig eftir aðgerðina, er að vísu en á sýklalyfjum útaf lungnabólgunni, því mér versnaði við svæfinguna og er því ennþá með í lungunum. Svo núna á mánudaginn, þá fer ég til læknisins til að láta skoða og taka saumana og þá fæ ég vonandi að vita hvenær ég má fara aftur í vinnuna, það var sagt við mig eftir aðgerðina að ég mætti byrja að vinna í fyrsta lagi eftir 2-3 vikur og held ég í vonina að það verði fyrri talan… Því ég sakna vinnunar minnar og vinnufélaganna minna óhemju mikið, enda vinn ég náttúrlega á alveg yndislegasta, langbestasta og langflottasta vinnustað í heimi geimi..

En ég ætlaði núna bara aðeins að skella inn þessum fréttum, þar sem margir hafa verið að forvitnast um hvernig aðgerð ég var að fara í og hef ég sagt flestum að ég væri bara að fara í aðgerð og ekkert talað um það meir og vonandi hefur enginn móðgast við mig afþví að ég hef ekki viljað segja neitt og þeir sem þekkja til minnar fjölskyldu, skilja örugglega afhverju ég vildi ekkert vera að tala um hvernig aðgerð ég væri að fara í.

En gangið á Guðs vegum, eða þeim vegum sem þið viljið ganga á, ég ætla alla vega að ganga á mínum vegum í bili..

komin í pásu á lyfjunum, aðgerð framundan og afmælispartýið frestast..

Já, ég var látin taka pásu á sprautunum, þar sem ég var að bólgna svo upp á sprautusvæðunum, fékk endalausan kláða og vöðvakrampa. Ég á að taka þessa pásu þar til ég verð kölluð inn í rannsókn sem verður gerð á mér til að sjá hvort ég þoli þetta lyf, það er rannsókn sem fer þannig fram að ég ligg inní í einn dag og verð sprautuð á 15-20 mínútna fresti og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu mikil tilhlökkun er í gangi hjá mér. Hreinlega get ekki beðið útaf spenningi….

Síðan er það framundan að ég fer í aðgerð 18. nóv, tveimur dögum fyrir 29 ára og 365 daga afmælið mitt, þannig að afmælispartýið sem ég ætlaði að halda á afmælisdeginum, frestast þar til eftir áramót, engar áhyggjur það verður haldið :)

Þessi aðgerð er eitthvað sem þarf að gera sem fyrst, ég er ekki alveg tilbúin að segja frá hvernig aðgerð þetta er, því ég verð að viðurkenna að það var sjokk að heyra að ég þyrfti að fara í hana og ég er ekki alveg búin að sætta mig við að þurfa að fara í þessa aðgerð, síðan ofan á það, að þá sagði læknirinn okkur það að það væri meiri hætta hjá mér en öðrum að vera svæfð, það gæti framkallað alvarlegt MS kast og það hræðir mann en meira.
En það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýn, því ég ætla að halda partý eftir áramótin og svo er líka alveg komin tími á góðan endi á veikindum í minni fjölskyldu og það held ég að allir séu sammála um sem til þekkja.

Annars er það venjulega rútínan þessa dagana, vinna, ræktin, börnin, kallinn, kötturinn og sofa =) Já og með ræktina, þjálfarinn er þvílíkt ánægður með framförina hjá mér í ræktinni, fer samt ekki fyrr en í mælingu fyrr en kannski rétt fyrir jólin, fer eftir því hvort ég verði orðin góð eftir aðgerðina..

Er ég komin úr bloggfríi?

Núna undanfarið hef ég mikið verið spurð hvort ég sé búin að leggja það niður að blogga, svarið sem ég hef gefið öllum er “nei, ég er í löngu fríi” :)

Málið er að mig hefur alveg vantað andann til að blogga, síðan hefur allt gengið svo upp og ofan hjá mér síðasta árið, að ég hef eytt tímanum í að koma því í lag..
Og eitt af því langbesta sem ég gerði nú á árinu, var að fara á Dale Carnegie námskeið, held að mér hafi verið ætlað að fara þangað, því ég vissi í rauninni ekkert hvað Dale Carnegie væri, síðan fyrir forvitnissakir, ákvað ég að skrá mig á síðuna þeirra á Facebook og skrifa smá línu í comment hjá þeim og viti menn, ég var dregin út og hlaut að launum 12 vikna námskeið.
Þetta námskeið hafði mikil áhrif á mig, þarna gat ég leyst frá skjóðunni og sagt frá öllu á milli himins og jarðar og að sjá hvað það voru margir aðrir þarna í sömu sporum og ég, en kannski með aðrar reynslusögur. Ég meira segja sagði frá einu, sem enginn í mínu lífi veit um, nema hún Ásta amma mín, vissi af þessu  á sínum tíma og fór ekki með það lengra og það munu þau sem voru á námskeiðinu einnig gera, því þetta fer ekki út fyrir þá veggi.
Ég skrifaði t.d. þrjú bréf á námskeiðinu, eitt til Ástu Guðnýjar, eitt til Bigga bróður og eitt til Eddu, þetta voru bréf sem ég hefði eflaust aldrei annars skrifað til þeirra, en í þeim stóðu orð sem ég meina svo innilega og er svo ánægð með að hafa komið til skila.Dale Carnegie er eitthvað sem allir ættu að fara á, þetta er svo mikils virði og eins þá breytist svo margt í þínu hugarfari við þetta, þú lærir svo margt nýtt og lærir að það er allt miklu auðveldara en þú heldur.

Nóg komið af DC í bili :)

Ég er þessa dagana að prófa nýtt lyf, þar sem hitt var ekki að gera mér gott, núna þarf ég að sprauta mig daglega, geri það alltaf á morgnanna og þar sem það verður að gera þetta alltaf á sama tíma, þá er það harkan sex og ég vöknuð kl. 7:30 um helgar líka :)
Þetta lyf er að vísu ekki alveg að gera góða hluti uppá það að gera, að mig svíður hrikalega, klæjar svakalega, fæ rosa hnúða og svo litla dúllulega flekki… Samt, þá er þetta samt alveg frábært og heljarinnar fjör, því þriggja daga hausverkurinn um helgar er horfinn…

Svo það sem annað er, að við hjónin erum byrjuð í ræktinni, í Sporthúsinu, við höfum verið að fara þrisvar í viku, ég hef að vísu farið alveg fjórum sinnum, þetta er ótrúlega gaman og það sem þetta gerir fyrir mann, líka alveg yndislegt að þarna erum við að gera eitthvað saman, þó að við séum kannski ekki saman í tækjunum, að þá erum við saman í þessu.
Axel er meira segja hættur að drekka pepsí…. Já, þið lásuð rétt, hann er hættur því, maðurinn sem gat farið uppí 6 lítra á dag :) Að vísu fær hann sér smá sopa á laugardögum, en ekkert af ráði, kannski hálfan líter, þess á milli drekkur hann vatn, kristal og mjólk. Síðan erum við hætt að borða nammi, alla daga, nema það má fá smá á laugardögum og ótrúlegt en satt að þá gengur þetta það vel hjá okkur að laugardaginn fyrir viku síðan, þá gleymdi ég að fá mér nammi…
Stefnan er tekin á að byggja sig vel upp, bæta þrek og þol og svo kannski losa sig við nokkur kíló í leiðinni, ég ætla að losa mig við tískuvöðvana (bingóvöðvana).
Við erum búin að vera í ræktinni í 5 vikur, ég hef ekki misst nema nokkur grömm og fannst eins og ég væri nú ekki að afreka mikið, þar til í gær að ég fór í sund og þá var tekin sú ákvörðun, að ég er ekki að fara aftur í sund í sundbolnum sem ég var í, hann var stór á mig fyrir, en ég var í vandræðum með að halda honum uppi í gær, þar sem hann var bara eins og poki á mér, en málið er að eins og ég sagði að mér finnst ég ekki sjá neinn árangur, en ástæðan er sú að ég er að fá vöðva í stað fitunnar og er að byrja að styrkjast, þannig að ég er að ná góðum árangri að mínu mati og er sátt.

Annars ætlum við Axel að halda uppi bloggi um heilsumálin okkar á hjonakorn.org, þar munum við kannski skella inn málum, en aðallega matarræði, æfingum og árangri. Svo munu fljóta með skemmtilegar reynslusögur, því við höfum alveg staðið í sitthvoru horninu hlægjandi að hvort öðru og enginn annar skilur neitt í neinu, ég var t.d. um daginn á hlaupabrettinu skellihlægjandi að honum, en hann í hinum enda salarins…

Síðustu vikurnar hef ég verið að rifja upp gamlar og góðar minningar, ég sagði t.d. við Axel um daginn, að þar sem ég veit ekki hvort ég sé trúuð eða þá á hvað ég trúi, að þá finnst mér samt eins og þegar ég rifja upp minningar um pabba að þá sé hann hjá mér og trúi ég þá því að hann sé í rauninni alltaf með okkur, eða í sumar þegar ég horfði upp til himins, þá fékk ég alltaf þá tilfinningu að hann væri í kringum mig, þið kannski skiljið ekki hvað ég er að fara… En það hjálpar mér rosalega að rifja upp góðu stundirnar frá því í “gamla daga”
Eins hef ég verið að rifja upp minningarnar um gamla húsið, þar sem það er að verða komið ár síðan að það var rifið, þetta hús, það hafði svo mikil áhrif á mig og ég held að ég tali fyrir alla móðurfjölskylduna með því að segja að þetta hús hafi haft áhrif á okkur öll. Þetta var nánast mitt annað heimili á yngri árunum og síðan bjó ég þarna sjálf með Axel og Bylgju Rós í rúmt ár, að vísu var þetta ár þannig að það snjóaði stundum á okkur á nóttinni og það voru ekki ófáar næturnar sem við lágum þrjú saman í kuldahnipri uppí rúmi til að hlýja hvort öðru, samt vorum við náttúrlega aðallega að hugsa um Bylgju Rós, það tóku nú ekki margir mark á okkur á þessum tíma, en svo þegar það var farið að skoða húsið nánar að þá kom í ljós að það var bara ekki hæft að búa í því, síðan eftir að mamma hafði búið þarna í smá tíma á eftir okkur þá var það dæmt ónýtt og var svo rifið í október í fyrra, hér að neðan má sjá myndbandið frá niðurrifinu, ég viðurkenni það að ég fæ klökk í hálsinn og tár í augun í hvert skipti sem ég horfi á þetta.

Axel er annars búinn að vera með vinnu síðan í vor, hann var að vinna á Seli í sumar, eins fékk hann vinnu hjá Guðmundi Tyrfingssyni við að keyra rútur, við vorum að vísu aðeins svarsýn núna eftir sumarið, þar sem það kom í ljós að GT gat ekki reddað honum fullt starf eins og staðan er í dag, en þeir vildu hafa hann í hlutastarfi og svo fullt starf um leið og ástandið færi að lagast.
Við gátum samt ekki séð fyrir okkur annan vetur eins og síðustu tvo, bæði andlega og fjárhagslega færi það endanlega með okkur, við byrjuðum á að skrá Axel hjá vinnumálastofnun á bætur, þegar ég ljós kom að hann fengi ekki nema dag og dag hjá GT, síðan fórum við líka á fullt að sækja um vinnur og viti menn, viku eftir að hann skilar skattkortinu inn til VMST, þá er hann boðaður í tvö vinnuviðtöl sama daginn og er núna kominn með vinnu hjá Eimskip/Flytjanda, sem er alveg frábært og við svo ánægð og sátt með þetta, en hann kemur líka til með að grípa í ferð og ferð hjá GT, þar sem vaktirnar hjá Eimskip verða þannig að hann vinnur 2 daga, frí 2 daga, svo önnur hver helgi vinna 3 daga og frí 3 daga :)
Enda trúði ég ekki öðru en að þetta færi nú allt að koma, þetta er búið að vera erfitt og leiðinlegt ferðalag, en það gat ekki annað verið en að þetta bansetta atvinnuleysi tæki enda og nú er bara að trúa að svona verði þetta og að nú sé komð að okkur að rétta úr kútnum…

Síðan er litla barnið hann Jón Hreiðar að verða 5 ára á morgun, hann er að klára síðasta veturinn á Brekkuborg, sem betur fer segi ég nú bara, því við erum alls ekki ánægð með þennan leikskóla og munum aldrei nokkurn tíma mæla með honum við nokkurn mann. Málið er að í kringum síðustu áramót kemur hann tvívegis heim með áverka eftir starfsmann á leikskólanum og fórum við náttúrlega strax á stúfana til að kanna málið, þessi starfsmaður er þarna ennþá í dag og sonur okkar er ekki alltaf sáttur við að fara á leikskólann, segist vera hræddur, segir að sér líði illa og að hann og þessi starfsmaður séu ekki vinir.
Þegar ég fór á fundi með leikskólastjóranum, deildarstjóranum (sem nú er hætt) og tveimur starfsmönnum Reykjavíkurborgar, þá var okkur lofað að þessi starfsmaður yrði ekki meira með Jón, við ákváðum að sætta okkur við það, en erum svo ekki ánægð með að hafa sætt okkur við það, þar sem Jóni líður augljóslega ekki vel með að fara þarna og eins þá hefur leikskólastjórinn sagt að drengurinn sé langrækinn, þegar ég sagði að Jón Hreiðar hefði sagt að hann og þessi starfsmaður séu ekki vinir.. Ég meina, er ekki nóg af fólki sem er án atvinnu sem er svo miklu hæfara í þetta starf, ég skil ekki og enginn í kringum okkur skilur afhverju þessi starfsmaður er þarna ennþá.
Ég hélt að maður ætti að geta treyst starfsfólki leikskólanna fyrir börnunum sínum og að maður ætti ekki að upplifa það að barnið sé hrætt og að það vilji nánast aldrei fara, svo núna eru þau á leikskólanum að segja að hann sé ofvirkur, með athyglisbrest og hreyfióróleika, það er eitthvað sem enginn og þá meina ég enginn annar sem tengist honum vill kannast við. Það fór sálfræðingur á vegum Reykjavíkurborgar að fylgjast með Jóni og sagði hún það sama, að það væri mikill hreyfióróleiki í drengnum, þannig að ég ákvað að spyrja sálfræðinginn hvort þetta væri ekki einfaldlega vanlíðan hjá stráknum á leikskólanum, hún gat hvorki játað né neitað þessari spurningu minni…
Hann er jú óþekkur og tekur sín frekjuköst eins og öll önnur börn, en það að hann sé ofvirkur, með athyglisbrest eða hreyfióróleika…. Þá er ég svertingi og með typpi, held að það sé alveg jafn mikið til í því….
Það sem við gerðum núna síðast, var að við töluðum við mann hjá Barnaverndarstofu og eigum við núna að taka saman allt sem við höfum í höndunum, myndir og fleira og koma með þetta þangað, maðurinn hjá Barnaverndarstofu var sammála okkur í því að við ættum ekki að sætta okkur við þetta.

Síðan er það skólastelpan hún Bylgja Rós, sem verður 7 ára í næsta mánuði, henni gengur mjög vel í skólanum, er dugleg að læra og fær góðar einkunnir, hún er svona eins og mamma sín í íslenskunni og eins og pabbinn í stærðfræðinni. Hún fær endalaust hrós fyrir hvað hún er dugleg að læra, hún á það til að heyra bara það sem hún vill heyra, en það hlýtur að vaxa af henni..
Ótrúlegt að litla krílið sé að verða 7 ára, nýfædd…

Og loks er það ég sjálf sem á afmæli í nóvember líka, þá mun ég staðna í aldri og verða 29 ára og 365 daga gömul, eldri verð ég ekki.

Eigum við ekki annars að segja þetta gott blogg hjá mér, ég ætla ekki að lofa neinu, því þá svík ég ekkert með næsta blogg, kannski verða nokkrir dagar í það, kannski nokkrar vikur, kannski nokkrir mánuðir eða ár, jafnvel nokkur ár, hver veit??

Er ég komin úr bloggfríi?

Jæja, þá er komið að því…

Síðustu daga hef ég verið alveg ofboðslega utan við mig, hugsa að það sé útaf þessum mikla kvíða sem ég er að kljást við útaf sprautunni, en ég fékk dagsetningu í síðustu viku og sú dagsetning er á morgun, þannig að já, það er loksins komið að því, hefði samt viljað vita það kannski svona klukkutíma áður, þar sem ég er alveg ofboðslega hrædd við sprautur og nálar. Þannig að það hefur verið lítið um svefn hjá mér síðustu daga.
En ég er samt fegin að það sé loksins komið að þessu og vona bara innilega að lyfið virki vel á mig og að þetta verði til þess að ég sigrist á sprautufælninni, en mér til halds og trausts verður Axel og ætlar hann líka að læra að sprauta mig.
Það er líka gott að það sé að koma að þessu, því ég er farin að finna meira fyrir einkennum MS sjúkdómsins og þetta lyf á að draga úr því og halda honum í skefjum og eins og ég hef sagt áður að þá skiptir það mig mestu máli að geta hugsað um fjölskylduna mína og unnið vinnuna mína sem lengst og þá helst til æviloka, en ég ætla náttúrlega að verða a.m.k. aldargömul :)

Annars er ég bara að vinna mína yndislegu vinnu og hugsa um börnin mín þessa dagana, það var að vísu dálítið erfitt að byrja að vinna aftur eftir sumarfríið, en ég var ein heima fyrstu vikuna sem var svo sem ágætt, því þá hafði ég tímann útaf fyrir mig eftir vinnu og gat slakað almennilega á og reynt að hvíla mig sem mest.

Svo er Jón byrjaður á nýja leikskólanum, Brekkuborg. Aðlögunin gekk bara vel hjá honum og okkur líst bara vel á nýja leikskólann og starfsfólkið þar.
Stóru fréttirnar eru samt þær að frumburðurinn hún Bylgja Rós er byrjuð í skóla, Húsaskóla, alveg hreint ótrúlegt hvað tíminn flýgur, maður er nýbúin að fá hana í fangið og svo er hún allt í einu byrjuð í grunnskóla. Hún er mjög ánægð og stolt af að vera byrjuð og sagði m.a. annars við mig strax eftir fyrsta kennsludaginn að nú kynni hún bæði að reikna og sauma. Okkur líst líka vel á skólann hjá henni og umsjónarkennarann hennar.

Núna styttist svo í að Axel komi alveg heim aftur, en það verður um miðjan september, en þá er vinnan búin hjá honum og algjörlega óvitað hvað tekur við. Það lítur alla vega ekki vel út með vinnu en við erum endalaust að leita og líta í kringum okkur að vinnu fyrir hann, þannig að ef einhver veit um eitthvað þá er það vel þegið. Því þó að það verði gott að fá hann heim til mín og barnanna aftur, þá er samt kvíði fjármálalega séð. En ég reyni að vera bjartsýn á þetta allt saman, maður verður alla vega að reyna.

En jæja, ætla að fara að hvíla mig hvað úr hverju, Axel er komin heim til að fara með mér á morgun uppá sjúkrahús og vonandi gengur þetta vel og vonandi verða engar aukaverkanir. Ég skrifa kannski smá hérna inn annað kvöld ef ég verð hress og kát eftir daginn.

Annars bara, hafið það öll alveg innilega gott sem nennið að lesa þetta :)

Blogg í sumarfríinu

Jæja, þá er kominn tími á smá blogg.

Ég er búin að vera í sumarfríi síðustu vikurnar og er búin að vera á Flúðum allt fríið með krakkana, en Axel er að vinna þar núna í sumar. Ég er búin að eiga misgóða daga og finn það alveg að ég þoli ekki að gera hvað sem er og verð að passa uppá að verða ekki ofþreytt, ég á það til að fá það miklar kvalir að ég er við það að líða útaf en þá þarf ég bara að passa mig á að hlamma mér niður þar sem ég er til að ég líði hreinlega ekki útaf.

Ég er en að bíða eftir að byrja á lyfinu sem á að hjálpa mér, en það er búið að vera klúður frá a-ö, ég fékk staðfestingu frá lækninum mínum um að hún væri búin að senda allt frá sér áður en hún fór í sumarfrí í byrjun júní og það tæki 3-4 vikur að bíða eftir að fá samþykki fyrir lyfinu eftir það ætti ég að fara á dagdeild taugahjúkrunar á Borgarspítalanum og læra á að sprauta mig og læra allt um lyfið. Eftir rúmar 3 vikur hafði ég samband við sjúkrahúsapótekið til að tékka á stöðunni og var þá ekkert samþykki komið, þannig að ég ákvað að hringja fleiri símtöl til að tékka á stöðunni og það fannst ekkert, ég hélt áfram að hringja endalaust þar til læknirinn minn kom úr fríi og hafði ég þá samband við hana. Kom þá í ljós að sá eða sú sem á að sjá um að senda allt frá lækninum mínum hafði ekki gert það, þannig að þetta var búið að liggja á borðinu hennar frá því að læknirinn sendi þetta frá sér.
Þannig að læknirinn minn lét senda þetta strax af stað og bað um forgang þar sem hún vildi að ég myndi byrja á þessu sem fyrst þar sem ég er alltaf að verða verri og verri og ég þarf á því að halda að byrja á þessu lyfi sem fyrst, en eftir að læknirinn minn bað um forgang þá tók þetta ekki nema 2 vikur og núna 22. júlí eftir að vera búin að bíða eftir þessu í næstum 2 mánuði, þá var samþykkið loksins komið, en þá tók annað við, báðar þær sem sjá um að kenna fólki á ms lyfin, fræða og sprauta eru komnar í sumarfrí til 17. ágúst, fóru deginum áður en samþykkið kom. Og svo virðist sem að enginn annar geti gert þetta, þó ekki væri nema að sjá um að sprauta mig þar til þær gætu kennt mér á þetta allt saman, þannig að ég verð bara að bíða áfram og vona að ég versni ekki mikið meir. Þetta er en eitt dæmið sem sýnir hvað við íslendingar erum með einstaklega frábært heilbrigðiskerfi…

En annars er ég lítið búin að bralla í sumarfríinu, hef hjálpað aðeins til í golfskálanum þegar það hefur þurft, fór í brúðkaup og svo er ég búin að sóla mig þar sem það hefur ekkert ringt hérna á meðan ég er búin að vera í fríinu fyrr en fyrst í gær og búið að vera vel yfir 20 gráðu hiti nánast alla dagana.

Síðan áttum við Axel 5 ára brúðkaupsafmæli 15. júlí og pabbi minn hefði orðið 68 ára þann dag, ég er búin að fara nokkrum sinnum í kirkjugarðinn til pabba, mér finnst rosalega gott að fara þangað og liggur við að tala við sjálfan mig, það er svo margt sem ég get sagt þar og finnst eins og það sé verið að hlusta á mig, kannski er þetta vitleysa í mér, en mér finnst eins og ég sé búin að létta svo mikið á mér þegar ég yfirgef leiðið hans pabba.
Svo er ég líka búin að fara og heimsækja ömmu mína hana Ástu, hún náttúrlega ein sú besta sem ég veit um og hefur gert alveg óendanlega mikið fyrir mig. Hún er 98 ára síðan í apríl og mér finnst hún ótrúlega hress miðað við aldur, en hún er farin að gleyma svolítið og spyr mikið sömu spurninganna aftur og aftur sem er bara ósköp eðlilegt. Jón Hreiðar er mjög svo hrifinn af langömmu sinni og knúsar hana endalaust mikið þegar hann hittir hana, svo er hann með mynd af henni uppá vegg hjá sér í herberginu sínu svo hann geti horft á hana þegar hann er að sofna á kvöldin, en myndin var sett þarna upp að hans eigin ósk.

Svo má ekki gleyma verslunarmannahelginni í ár, við fórum á heimsmeistarakeppnina í traktorstorfæru og auðavitað var það frændi minn frá Grafarbakka sem vann, þá var hið árlega Grafarbakkafjölskyldumót á Grafarbakka, það var mjög góð mæting og alveg rosalega gaman, við fórum þangað á laugardeginum með fellihýsi sem við fengum lánað og gistum þar eina nótt, það var grillað, drukkið og djammað fram eftir nóttu og aldrei þessu vant að þá vorum við Axel ekki hætt að skemmta okkur fyrr en um fimmleytið um morguninn og Útlaginn var tekinn með stæl, en ég ákvað að leyfa mér að djamma einu sinni almennilega, þar sem ég veit ekkert hvernig þessi lyf eiga eftir að fara í mig og þess háttar. Þessi helgi verður alla vega lengið höfð í minnum.

Í gær fórum við svo í bæinn, ég, Axel og Bylgja Rós, ákváðum að fara og kaupa það sem þyrfti fyrir skólagöngu Bylgju Rósar, en það er ótrúlegt en satt að frumburðurinn er að fara að byrja í skóla eftir 19 daga. Hún valdi sér skólatösku og pennaveski, síðan keyptum við allt annað sem þarf fyrir hana samkvæmt innkaupalistanum út skólanum sem hún fer í. Hún var rosalega ánægð með allt sem var keypt handa henni.

Núna er svo bara þessi vika eftir í sumarfríinu og næsta sunnudag fer ég ein í bæinn til að byrja aftur að vinna, Jón Hreiðar á ekki að byrja á nýja leikskólanum fyrr en 17. ágúst, þannig að hann kemur viku á eftir mér og svo byrjar Bylgja Rós ekki í skólanaum fyrr en 24. ágúst, þannig að hún verður hérna í sveitinni tveimur vikum lengur en ég. Ég viðurkenni það að það verður eflaust skrítið að vera ein í viku, hef ekki verið ein í svo langan tíma síðan fyrir næstum 7 árum síðan.

En jæja, ætla að kíkja aðeins út fyrir hússins dyr, enda ekki rigning 😉
Afsaka langt blogg, en ég er búin að hafa svo góða afsökun fyrir að blogga ekki þannig að þig sem lesið þetta hljótið að fyrirgefa, en afsökunin er sólin og hitinn 😉

Góðar fréttir og ekki svo góðar fréttir

Nú held ég að það sé tími fyrir smá blogg og er ég bæði með góðar fréttir og ekki svo góðar.

Góðu fréttirnar eru þær að Axel fékk vinnu núna í byrjun maí og byrjaði hann um miðjan mánuðinn, hann fékk vinnu á golfvellinum á Flúðum hjá systir hennar mömmu, hann er mjög ánægður þarna og gengur bara vel, er í fríi aðra hverja helgi og kemur þá heim og hinar helgarnar fara ég og börnin til hans. Þó að þetta sé bara tímabundin vinna núna í sumar, að þá er þetta þó vinna og kemur til með að létta þónokkuð á okkar fjárhag. Ég viðurkenni það alveg að við söknum þess að hafa hann ekki hjá okkur alla daga, enda höfum við varla verið aðskilin frá því að við fórum að vera saman, en þetta er vel þess virði fjárhagslega séð :)
Síðan er Bylgja Rós búin að útskrifast af leikskólanum, þó svo að hún verði nú á honum fram í miðjan júlí, eða þar til ég og krakkarnir förum í sumarfrí, svo eftir sumarfrí tekur alvaran við hjá henni, sjálfur grunnskólinn. Svo er hún líka búin að missa fyrstu tönnina og var hún mjög glöð með það og heimsóknina frá tannálfinum :)
Og Jón Hreiðar vex og dafnar eins og honum einum er lagið, hann er náttúrlega litla barnið í fjölskyldunni, en samt svo ótrúlega stór :)

En svo eru líka ekki svo góðar fréttir hér á þessu bæ.
Málið er að í febrúar 2005, stuttu eftir að ég vissi að ég væri ólétt af Jóni Hreiðari, þá lenti ég í smá óhappi þar sem ég var að vinna sem sundlaugarvörður í sundlauginni á Flúðum, ég var að loka heitum potti, rann og fékk lokið á öxlina á mér. Í nokkra daga eftir á var ég aum í hendinni og töldu læknarnir að líklegast hefði ég tognað við höggið og fékk ég verkjastillandi við því, verkirnir fóru svo eftir nokkra daga.
Síðan fara verkirnir að koma aftur og lenti ég líka í því að togna í bakinu og fór ég þá í sjúkraþjálfun á Selfossi og lagaðist í bakinu við það, en verkirnir í hendinni löguðust ekki.
Síðan í byrjun sumars 2005 þá fluttum við í bæinn og þar sem verkirnir í hendinni héldu áfram að vera til staðar og endaði með því að í eitt skiptið þá blánaði ég upp á hendinni og hún varð ísköld og var þá ekki tekin nein áhætta þar sem ég var ófrísk og fór ég beint til læknis, þar fannst ekkert að, en talið var að fóstrið væri jafnvel að þrýsta á einhverjar taugar, en ég var samt sem áður send til handasérfræðings í Orkuhúsinu sem mig minnir að heiti Guðmundur, en þá var ég búin að fara í einhver æðapróf og ýmislegt annað.
Ég fór í nokkur skipti til Guðmundar, hann sendi mig í sjúkraþjálfun, þar sem ég gerði hinar ýmsu æfingar með hendina og var líka notaður laser á hendina á mér. Ég fór líka í myndatökur og eingöngu var einbeitt sér að hendinni, svo var mér sagt að þetta myndi lagast þegar strákurinn myndi fæðast og ákvað ég bara að halda í þá von.
Loks fæðist Jón Hreiðar, en ekki hurfu þessir verkir sem ég var alltaf að fá og svo einn daginn þegar hann var um þriggja vikna gamall þá var ég að taka hann upp af rúminu, en missti hann aftur, þar sem ég missti máttinn í hægri hendinni.
Þá var farið að skoða þetta betur og fór ég að fara aftur til Guðmundar, hann hélt áfram að einbeita sér að því að skoða bara á mér hendina og ekkert fannst, eftir að hafa farið til hans af og til og í sömu rannsóknirnar aftur og aftur, þá gafst ég upp á að vera hjá honum og talaði ég þá við Pétur vin minn í Laugarási og spurði hann útí annan lækni sem mér hafði verið bent á og varð úr að ég fór til hans, sá heitir Magnús ef ég man rétt, en ég var á þessum tíma búin að hitta fullt af læknum en man engan vegin nöfnin á þeim öllum. Eftir að hafa verið hjá Magnúsi og hann tilkynnt mér það að það væri ekkert sem hann gæti gert þá var ég ákveðin í því að ég ætlaði bara að gefast upp og vera svona það sem eftir væri, enda var ég þarna búin að vera í eilífðar rannsóknum frá því 2005 og þarna var komið sumarið 2008, tek það fram að um svipað leyti og ég fór til Magnúsar, fór ég einnig til gigtarlæknis, en það kom ekkert út þar heldur.
Síðan var það í október í fyrra að ég gafst uppá því að gefast upp og hringdi í Pétur lækni í Laugarási og sagði honum að ég bara gæti þetta ekki lengur, núna yrði hann að finna einhvern lækni fyrir mig sem að í eitt skipti fyrir öll myndi finna hvað væri virkilega að og Pétur var alveg sammála mér með það og sendi mig til læknis sem ég sé ekki eftir að hafa farið til og á ég Pétri mikið að þakka fyrir að hafa sent mig til þessa læknis því að loksins fannst hvað var í gangi.
Ég fékk tíma hjá Guðrúnu Rósu í janúar á þessu ári, síðan breyttist tíminn og fór ég til hennar í desember og eftir að hafa sagt henni alla söguna ákvað hún að senda mig í segulómun sem ég fór í 9. janúar 2009 og hrifrit, hrifritið leit eðlilega út og segulómunin í rauninni líka, eina sem var þar var að það var hvítuefnabreyting, sem eru taugaendar við taugar við heilann eða eitthvað álíka, er en að læra öll þessi orð og hvað hvert orð er fyrir :) En þegar ég fór svo til hennar eftir þessa segulómun þá fór hún að spyrja mig nánar út í hitt og þetta og ég fór að segja henni frá kulda og doðatilfinningum og ýmsu öðru, það varð úr að hún ákvað þá að senda mig aftur í segulómun og láta þá mynda líka mænuna.
Ég fer aftur í segulómun 3. apríl 2009 og þegar ég fer til Guðrúnar Rósu aftur 24. apríl, þá var hvítuefnabreytingin vaxandi miðað við fyrri segulómun og segulskær skella sést á mænunni sem segir útlit grunsamlegt fyrir demyeliniserandi sjúkdóm, þegar hún hafði sagt mér hvað þetta þýddi, þá var tekin ákvörðun um að ég myndi fara í mænuástungu til að taka mænuvökva til að styðja við þessa niðurstöðu.
11. maí fer ég síðan í þessa stungu, en Guðrún Rósa vildi að ég færi sem fyrst svo hún gæti klárað að fá niðurstöðu áður en hún færi í sumarfrí. Axel fór með mér í stunguna, sem betur fer því ég hélt ég yrði drepin á borðinu þar sem læknirinn stakk óvart í hrygginn á mér og er ég en að fá verki í bakið útaf því, en það á víst að lagast :)
Svo núna föstudaginn 29. maí var eiginlega dálítill örlagadagur í mínum huga, miðað við það sem Guðrún Rósa hafði áður sagt mér þá var ég samt búin að vera í afneitun og búast við að loka niðurstaðan yrði önnur, en ef Axel hefði ekki komið með mér núna á föstudaginn, þá hefði ég örugglega farið að grenja inni hjá lækninum.

En niðurstaðan er sú að ég er með MS.

Ég var strax sett á lyf sem eiga að auðvelda mér svefn, draga úr kvíða og minnka verkina, en Guðrún Rósa ætlar að sækja um önnur lyf fyrir mig, sem eru þannig að ég þarf að læra að sprauta mig, hvort sem ég mun þurfa að gera það vikulega eða daglega, en þau lyf eiga að draga úr virkni sjúkdómsins.
Í dag veit ég ekki alveg hvernig mér líður, en ég er en ekki alveg að trúa þessu og meðtaka og getur það tekið smá tíma, en samt get ég sagt það að ég er hrædd. En ég veit samt að ég þarf ekkert endilega að vera það.

Ég veit að þetta er heljarinnar færsla og kannski ekki allir sem hafa nennt að lesa hana, en ég vildi bara koma allri sögunni á blað, reyndar er þetta bara byrjun sögunnar, því ég er ákveðin í því sama á hvaða veg sjúkdómurinn fer hjá mér að ég ætla að blogga um hann og þið sem viljið getið fylgst með hérna og eins megið þið líka tala um þetta við mig því ég er eins og flestir vita orðin ein sú opnasta manneskjan sem til er í dag :)

Svo á ég líka að ég tel bestu börnin og bestu fjölskyldu í heimi og manninn minn elska ég fyrir að vera sá klettur sem hann er búinn að vera við hliðiná mér í þessu öllu saman, en ég elska hann líka fyrir miklu meira en það.
En núna ætla ég að láta þetta vera gott í bili, enda farin að tárast útaf væmninni í mér hérna í lokin..

Kosningar

Jæja, þá er ég búin að kjósa og kaus að kjósa það sem ég kaus, eflaust margir ánægðir með það sem ég kaus og aðrir eflaust óánægðir, ég rölti með Bylgju Rós að kjósa og mikið var gott að fá sér smá göngutúr í þessu góða veðri. Axel kom ekki með þar sem hann kýs að kjósa ekki og er það hans val.
Það var eitt sem Bylgja Rós tók eftir þegar við fórum að kjósa, það var að þegar við komum að kjörstjórninni þá heyrist í henni “mamma, þessi maður er alveg eins og töframaðurinn” sem var mikið rétt hjá henni þar sem einn af þeim sem var í kjörstjórninni var töframaðurinn sem hún aðstoðaði í fermingarveislunni um daginn, spurning hvort hann geti breytt atkvæðunum með töfrum ef maður hefur ekki kosið rétt 😉

Það þarf lítið til, til að týnast í öðrum heimi.

Ég komst að því í dag hvað ég er óendanlega þakklát fyrir börnin mín, manninn minn, aðra fjölskyldumeðlimi, vini mína, vinnufélaga mína, vinnuna mína og svo margt margt annað. Það er ótrúlegt hvað allt getur breyst á nokkrum mínútum og maður fær engu við ráðið.
Ég komst að því að það er svo margt annað sem skiptir máli í þessu lífi en þessi árans kreppa sem allir lifa og fæðast á þessa dagana og þessar blessuðu kosningar, en samt ætla ég að kjósa og ég ætla að kjósa að kjósa 😉

Ég er alla vega í öðrum heimi núna en ég var í þegar ég vaknaði í morgun, þá var allt svo jákvætt eitthvað, svo bara allt í einu BÚMM og ég veit ekki hvaða tilfinningar brjótast um hjá mér, en finnst ég svolítið týnd, í öðrum heimi, eða utan við mig.

Vil samt taka fram að með þessu örstutta bloggi er ég ekki í neinu svartsýnis eða þunglyndiskasti 😉 Ég fékk bara fréttir í dag, sem gætu átt eftir að breyta lífi mínu á vissan hátt, kannski ekki, það kemur allt í ljós. Þangað til að ég veit meira þá ætla ég ekki að segja meira, bara hafa það fyrir mig, manninn minn, tengdaforeldra og mömmu, kannski óþarfi að vera að blogga svona tvísýna færslu, en ekki rangtúlka neitt, þið fáið að vita meira síðar.

Þetta stutta blogg er meira fyrir mig og til að benda á hvað það þarf lítið til að allt breytist, ég hef að vísu svo sannarlega kynnst því, en þetta er eitthvað svo allt öðruvísi.

En eitt að lokum, knúsið þann sem er ykkur næstur, það er þess virði 😉

Ferming, 28 ára skírnarafmæli og þreyta…

Þá er en ein fermingarveislan að baki, en það var verið að ferma yngsta barnabarn ömmu og afa föðurmegin í dag, hana Agnesi Ósk, hún varð voða flott og fín. Síðan kom töframaður í veisluna og sýndi nokkur atriði og var Bylgja Rós m.a. fengin til að aðstoða hann og mikið var hún ánægð =)

Í dag eru líka heil 28 ár liðin frá því að ég fékk nafnið Kristín Ásta, spurning um að fara að skipta um nafn eftir öll þessi ár =) En ég, Rúnar og Fjóla Sigrún vorum öll skírð þennan dag fyrir 28 árum síðan í Hrunakirkju og var það séra Sveinbjörn sem skírði okkur. Ég man þetta eins og það hafi verið í gær =)

Á þriðjudaginn eru svo 15 ár liðin frá því að bekkjarsystkini mín fermdust og í raun hefði það líka átt að vera minn fermingardagur, en þar sem mamma veiktist viku fyrir ferminguna mína þá fermdist ég ekki fyrr en 4. september 1994. En ég lít nú reyndar á 21. apríl sem svona hálfgerðan fermingardaginn minn.

Annars er allt ágætt að frétta, ég er að vísu búin að vera óvenjuþreytt undan farið, átt erfitt með að sofna á kvöldin, en lítið mál að vakna á morgnana sem betur fer, hef svo haldið mér vakandi í vinnunni með kaffidrykkju og gengur það bara þrusuvel.

Það lítur líka út fyrir að sumarið sé að koma, en það er minn tími, hef alltaf verið meiri sumar en vetrarmanneskja, en finnst samt alveg ágætlega gaman að snjónum. Ég alla vega lít á komandi sumar björtum og jákvæðum augum þrátt fyrir allt sem er í gangi í þessu blessaða þjóðfélagi.

En jæja, höfum þetta gott í bili, vildi bara sýna það og sanna að ég get alveg bloggað, heilar þrjár færslur á stuttum tíma =)

Gleðilega páska

Já, þá eru páskarnir komnir einu sinni en með öllu tilheyrandi.
Ég og mínir erum búin að hafa það ágætt þessa daga, fórum austur á Skírdag í sveitina til mömmu, eða “ömmu Siggu Hönnu Siggu” eins og einn ungur maður hér á heimilinu kallar hana, sem er heilmikil framför, því áður var hún kölluð “amma Sigga”.

En já, á Skírdag var brunað í sveitina, fengum nýbakaða pizzu í Golfskálanum sem Halldór gerði handa okkur og ég get sko alveg lofað því að mér finnst þetta bestu pizzurnar sem ég hef smakkað, þó ég segi sjálf frá. Svo eyddum við kvöldinu með börnunum okkar, sem voru í miklu stuði og engan vegin til í að fara að sofa, en við hjónin fórum á endanum að sofa bara með þeim og þar með slökknaði á öllum á sama tíma.

Á Föstudaginn langa var okkur boðið í fermingarveislu til Hákons Egils í Golfskálanum og þrömmuðum við þangað yfir, ég, Axel, Jón Hreiðar, Bylgja Rós og mamma, nema að mamma datt kylliflöt á leiðinni þangað og þar sem ég sá hana ekki detta, þá brá mér frekar mikið, þar sem hún lá algjörlega hreyfingalaus í grasinu, en ég hélt að hún hefði liðið útaf, en svo þegar ég kom að henni sá ég að svo var ekki.
En það var heilmikið af fólki í veislunni og mikið um kökur og brauðrétti sem bragðaðist alveg ágætlega. Amma mín mætti líka í veisluna og var gaman að hitta hana eftir allan þennan tíma, mér finnst hún alveg einstaklega hress miðað við að hún verður 98 ára eftir nokkra daga og það var alveg yndislegt að sjá hvað hann Jón Hreiðar var hrifinn af henni, hann var alltaf að klappa henni og strjúka og talaði heilmikið við hana svo á endanum þá skreið hann uppí fangið á henni og knúsaði hana. Ég notaði tækifærið og smellti einni mynd af þeim saman, líka gaman að sjá þau saman yngsta og elsta fjölskyldumeðliminn, heil 94 ár á milli þeirra :)Eftir veisluna héldum við svo aftur í bæinn og kom mamma þá með okkur, en hún ætlar að vera hjá okkur í nokkra daga, þar sem hún þarf að stússast með bílinn sinn, fara til læknis og þess háttar.

Laugardagurinn fór svo annars vegar í smá búðarráp með mömmu og hins vegar í afslöppun þar sem ég var eitthvað óvenjuþreytt allan daginn, en það getur komið fyrir á bestu bæjum =)

Svo var það dagurinn í dag sjálfur páskadagur, dagurinn byrjaði á því að allir fengu sér hollan og góðan morgunmat, nema Axel sem ákvað að hans morgunmatur yrði páskaegg….
Eftir morgunmatinn var farið í að leita að páskaeggjunum og ekki tók það langan tíma fyrir hvern að finna sitt egg. Eggin hurfu á engri stundu ofan í Axel og krakkana, en mitt er en óbrotið í skál á eldhúsborðinu, ætla að njóta þess að borða það fyrir framan alla hina á morgun alein, hehehe…

En það fengu allir sinn málshátt og gátu þeir ekki passað betur.

Axel fékk: “Þangað fýsir elskhugann sem unnustan er”
Bylgja Rós fékk: “Oft er stór kólfur í lítilli klukku”
Jón Hreiðar fékk: “Sá árla rís verður margs vís”
Ég fékk: “Á misjöfnu þrífast börnin best”

Við ákváðum svo að sleppa hamborgarhryggnum sem við ætluðum að hafa í páskamat og skelltum okkur í að grilla frekar og sé ég ekki eftir því, fengum okkur dýrindis grísakjöt með ýmsu meðlæti og var það bara æði =)
Kvöldið er ég svo búin að nota í sjónvarpsgláp með krökkunum og slökun, er alltof södd eftir matinn, fegin að ég lét páskaeggið eiga sig =)

Ætla svo að njóta þess að vera í fríi á morgun líka og gera eitthvað með krökkunum, vona að það verði áfram þetta yndislega veður sem er búið að vera síðustu daga svo ég geti eytt deginum með þeim utan dyra, svo er ég að spá í að taka aðeins til í kotinu.

Læt þetta duga í bili, gleðilega páska þið sem álpist hingað inn =)